Sveitarfélagið Árborg vinnur nú að jarðvegsframkvæmdum og yfirborðsfrágangi á aðkomusvæði Barnaskólans á Eyrarbakka.
Í framhaldi af útboði var samið við lægstbjóðanda, Evu Björk Kristjánsdóttur, um verkið. Tilboðsfjárhæðin var rétt tæpar 20 milljónir króna en verkið felst m.a. í jarðvegsskiptum, jöfnun yfirborðs og lóðarlögun, hellulögn á snjóbræðslu og lagningu malbiks. Einnig er um að ræða þökulagningu á grasi, gróðursetningu ýmissa runna og trjáa, uppsetningu á ljósastaurum og fleira.
Áætlað er að verkinu verði lokið fyrir 1. september næstkomandi.
Fleiri framkvæmdir eru áætlaðar á Eyrarbakka í sumar en Háeyrarvellirnir verða malbikaðir auk þess sem unnið verður að yfirborðsfrágangi og klæðningu á Merkisteinsvöllum og Hraunteigi.