Unnið hefur verið að ýmsum úrbótum sem lúta að auknu öryggi ferðamanna í Reykjadal á undanförnum mánuðum.
Í sumar vann Guðni Tómasson að bættum göngustígum, breikkaði og lagaði halla á ýmsum stöðum í dalnum. Unnið var að uppsetningu hestagerðis innst í dalnum en eins og flestir vita er hestaumferð töluverð um dalinn sem er afar vinsæll áfangastaður ferðamanna og því mikilvægt að svæði séu skilgreind fyrir geymslu hrossa á meðan gestir staldra við í dalnum.
Félagar í Hjálparsveit skáta í Hveragerði hafa unnið afar vel að þessu verkefni, sett niður fleiri stikur við stíginn sem til stendur að númera og nú um liðna helgi unnu félagar í sveitinni að uppsetningu fjögurra brúa yfir heita lækinn. Héðan í frá ættu ferðamenn að geta farið um Reykjadal án þess að eiga á hættu að slasa sig við það að stikla eða hoppa yfir lækinn en það hefur verið ein helsta slysagildra göngumanna á þessari leið.
Efnið var flutt inní Reykjadal með þyrlu Landhelgisgæslunnar þar sem aðkoma vélknúinna ökutækja er nær ógerleg á þessari leið.
Úrbætur í Reykjadal eru styrktar af framkvæmdasjóði Ferðamálastofu en aðilar að verkefninu eru Sveitarfélagið Ölfus, Hveragerðisbær, Landbúanaðarháskóli Íslands og Eldhestar.