Framkvæmdir vegna byggingar nýrrar brúar yfir Ölfusá og færslu Þjóðvegar 1 út fyrir þéttbýlið á Selfossi hófust seint á síðasta ári.
Unnið hefur verið við jarðvegsrannsóknir fyrir undirstöður brúarinnar, aðstöðusköpun og jarðvegsskipti í vegstæði nýja vegarins austan árinnar.
Þegar veður leyfir verður tækjabúnaður fluttur á pramma yfir í Efri-Laugardælaeyju vegna jarðvegsrannsókna sem þarf að framkvæma þar.
Einnig er áætlað að fljótlega hefjist vinna við vegskeringar vestan árinnar. Sú vinna hefur í för með sér að loka þarf göngustígum að skógræktinni í Hellisskógi. Unnið er að útfærslu hjáleiðar fyrir gangandi vegfarendur nær árbakkanum, sem hægt verður að nota fyrst um sinn.