
Viðgerð stendur yfir á Selfosslínu 1 við golfvöllinn á Selfossi en þar brotnaði slá á einum staur í veðurofsanum um klukkan hálf átta í morgun.
Við spennuhöggið sem myndaðist þegar línan sló út varð rafmagnslaust í Þorlákshöfn í skamma stund. Í kjölfarið þurfti einnig að skammta rafmagn til stórnotenda og er mjólkurbúið á Selfossi til að mynda keyrt áfram á olíu þessa stundina.
Hellulína 1 leysti einnig út í morgun en kom aftur í rekstur nú í hádeginu og ætti þá rafmagn að vera komið á aftur allstaðar í Árnessýslu.

