Unnið dag og nótt við viðgerð á borholu

Bilaða dælan var hífð upp úr borholunni í dag. Ljósmynd/Veitur

Viðgerð á borholu hitaveitunnar í Hveragerði er í fullum gangi en alvarleg bilun varð í dælu í holunni síðastliðinn sunnudag. Bilunin hefur áhrif á alla sem tengjast gufuveitunni og tvöföldu kerfi hitaveitunnar.

„Við biðjum fólk og fyrirtæki ennþá að fara sparlega með vatnið því viðgerð stendur nú sem hæst,“ sagði Silja Ingólfsdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, í samtali við sunnlenska.is en unnið verður í alla nótt á svæðinu. Hitastig á vatninu í Hveragerði er ennþá aðeins lægra en vanalega, en íbúar ættu ekki að finna mikið fyrir því.

„Ný dæla er komin á staðinn, en hún er sérsmíðuð, þar sem borholan er sú heitfengasta á landinu og dælir að jafnaði um 170° heitu vatni,“ segir Silja ennfremur og bætir við að það sé margt sem þurfi að huga að við svo viðamikla og flókna framkvæmd og mikilvægt að öryggi allra sem vinna á svæðinu sé tryggt.

Ef allt gengur að óskum og veðrið verður hagstætt ætti nýja dælan að vera komin í gagnið fyrir helgi.

Silja segir að stórir notendur í bænum hafi sýnt mikinn skilning og takmarkað notkun sína eins og hægt er til að draga úr afleiðingum bilunarinnar. Til dæmis hefur sundlauginni og heitum pottum í Laugaskarði verið lokað en opið er í Laugasport og sturtur þar.

Fyrri greinDagur íslenskrar tungu og tónlistar í eina sæng
Næsta greinHópslysaáætlun virkjuð vegna rútuslyss