Unnu stórfelld skemmdarverk á sumarhúsum

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær þrjá unga menn í skilorðsbundið fangelsi fyrir innbrot og stórfelld skemmdarverk á þremur sumarhúsum í Rangárþingi ytra.

Ungu mennirnir fóru inn í þrjú sumarhús í landi Ketilhúshaga á Rangárvöllum í ágúst árið 2011 þar sem þeir unnu stórfelld eignaspjöll bæði utan og innanhúss. Í einu húsinu brutu þeir fjórar rúður og skemmdu fjölda innanstokksmuna. Í næsta húsi brutu þeir glugga, skemmdu gítar, málverk, sófa og fleira og í því þriðja brutu þeir rúðu á hurð og skemmdu ýmsa lausafjármuni. Úr einu húsinu stálu þeir einnig áfengi.

Mennirnir voru allir ákærðir fyrir húsbrot, eignaspjöll og þjófnað en við þingfestingu málsins var ákærunni breytt á þann veg að fallið var frá ákæru um eignaspjöll á hendur einum þeirra og hann því aðeins ákærður fyrir húsbrot og þjófnað. Mennirnir játuðu sök í málinu.

Einn mannanna hafði hreint sakavottorð og fékk hann þriggja mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundinn til tveggja ára.

Hinir tveir höfðu tvívegis áður sætt refsingu, fyrir fyrir fíkniefnabrot og rán og rauf annar þeirra skilorð með broti sínu. Sá var dæmdur í níu mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára en hinn í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára.

Refsing mannanna og skilorðsbinding dómanna var ákveðin með tilliti til ungs aldurs þeirra.

Fyrri greinDagbók lögreglunnar á Hvolsvelli: Talsverður erill
Næsta greinSkyldusigur í Árbænum