Ársfundur Vestnorræna ráðsins kaus Unni Brá Konráðsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, formann ráðsins á ársfundi þess í Qaqortoq á Grænlandi í gær.
Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur Alþingis, Landsþings Grænlands og Lögþings Færeyja. Löndin þrjú skipa sex fulltrúa hvert í Vestnorræna ráðið. Unnur Brá tekur við embættinu af Lars-Emil Johansen, forseta grænlenska Landsþingsins. Auk Unnar Brár skipa Íslandsdeild ráðsins Páll Jóhann Pálsson, varaformaður, Oddný G. Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Páll Valur Björnsson og Þorsteinn Sæmundsson. Formaður ráðsins er kjörinn til eins árs.
Í ræðu sinni til ráðsins lagði Unnur Brá áherslu á mikilvægi þess að Vestnorræna ráðið haldi áfram að vinna að nánara samstarfi vestnorrænu landanna um málefni norðurslóða, þar á meðal á vettvangi Hringborðs norðurslóða og með því að tryggja að umsókn ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu verði samþykkt. Hún fagnaði yfirlýsingu utanríkiráðherra landanna þriggja frá því í gær, 22. ágúst, um að kannaðir verði kostir þess að gera þríhliða fríverslunarsamning milli landanna. Yfirlýsing ráðherranna er í samræmi við ályktun Vestnorræna ráðsins frá árinu 2015 og sagði Unnur Brá það ánægjulegt að málið væri loksins komið í skýran farveg hjá stjórnvöldum landanna þriggja.