Unnur Lísa Schram á Vorsabæ 1 á Skeiðum var í gær útnefnd Skyndihjálparmaður ársins 2016 en hún bjargaði eiginmanni sínum, Eiríki Þorkelssyni, með ótrúlegum hætti á öðrum degi jóla.
Viðurkenningin var veitt við hátíðlega athöfn í Hörpu á 112-deginum, sem haldinn er þann 11. febrúar ár hvert.
Eiríkur var enn með sauma í sér að jafna sig eftir hjartaaðgerð sem hann hafði farið í um viku fyrir jól. Hann var nýkominn úr göngutúr og sat við hlið Unnar Lísu þegar hann skyndilega stífnaði allur upp svo að ekki fór á milli mála að eitthvað alvarlegt var að gerast.
Unnur Lísa áttaði sig strax á að hann væri farinn í hjartastopp og hringdi á 112 til þess að kalla eftir sjúkrabíl að meðan hún hófst handa við að hnoða brjóstkassa eiginmanns síns. Tíu ára gamlar tvíburadætur þeirra, þær Fríða og Svana, tóku sinn þátt í skyndihjálpinni þegar þær kölluðu á Valgerði nágrannakonu sína af næsta bæ sem kom eins fljótt og auðið var og aðstoðaði við hnoðið. Baldvin, sonur Unnar og Eiríks, var nýfarinn frá þeim á spariskónum á leið á jólaball þegar hann fékk fregnirnar, festi bílinn í atganginum og hljóp af stað yfir túnin til þess að komast sem fyrst til þeirra. Hann tók þá við að tala við 112 og kveikja á hættuljósum á bílnum svo að þyrla Landhelgisgæslunnar sem hafði verið ræst út gæti séð hvar bærinn væri í myrkrinu.
Færðin var vond þetta kvöld og sjúkrabíllinn nokkuð lengi á leiðinni, en Unnur Lísa hnoðaði eiginmann sinn í um 25 mínútur þangað til fyrst sjúkrabíllinn en síðan þyrlan kom á staðinn og flutti Eirík til Reykjavíkur.
Að hnoða tekur gífurlega á líkamlega og vita þeir sem farið hafa á skyndihjálparnámskeið að 25 mínútur eru þannig ótrúlega langur tími til þess að hnoða stanslaust. Þeim hjónum brá raunar mest eftir að þau voru aftur komin heim af spítalanum þegar þau fóru að leita á netinu og sáu að almennt lifir fólk ekki af nema þegar hnoðað er í nokkrar mínútur og hversu fátíð skyndihjálparkennsla er í bæði Evrópu og Bandaríkjunum miðað við á Íslandi.
Unnur Lísa lýsir því hvernig hún hafi verið óviss hvort hún mætti yfir höfuð hnoða Eirík þar sem hann var nýkominn úr stórri hjartaaðgerð, en ef hún hefði ekki staðið í ströngu í þennan tæpa hálftíma er ljóst að Eiríkur hefði ekki lifað af.
Þau eru þakklát fyrir hvernig allir brugðust strax við, skyndilega voru um 12 manns inni á stofugólfi hjá þeim að aðstoða, Valgerður nágrannakona þeirra stóð vaktina í blæstri og Camilla vinkona þeirra hjóna einnig. Unnur Lísa lýsir því hvernig hún hafi verið úr tengslum við raunveruleikann og ekki hugsað um neitt annað en að hnoða og blása þannig að þegar sjúkraflutningamennirnir voru komnir á staðinn hafi hún spurt hvort fólkið vildi ekki kaffi! Þau flugu síðan til Reykjavíkur þar sem hjartaskurðteymi Landspítalans beið eftir þeim ef þyrfti að opna Eirík aftur.
Við val á Skyndihjálparmanni ársins var dómnefndin sammála um að um hreint skyndihjálparkraftaverk væri að ræða og Unnur Lísa væri vel að viðurkenningunni komin.
Eiríkur sjálfur man ekkert eftir deginum eða atburðunum, en er annars heill heilsu og raunar eins og ekkert hafi í skorist.
Unnur og Eiríkur ætla núna að fá hjartastuðtæki að Vorsabæ, ekki síst fyrir sveitunga sína þar sem bærinn er nokkuð miðsvæðis og allir vita þá hvar er hægt að nálgast hjartastuðtækið svo að hægt sé að bregðast fljótt og örugglega við í framtíðinni. Þau eru glöð að hafa bæði farið nokkuð reglulega á skyndihjálparnámskeið og munu hvetja alla í kringum sig til þess að gera slíkt hið sama og vera tilbúin ef á reynir. Þau vilja koma innilegu þakklæti til skila til allra sem að björguninni komu, ekki síst vina og vandamanna sem voru tilbúin þegar á reyndi.