Sveitarfélagið Árborg og Ólafshagi ehf. hafa gert samkomulag um uppbyggingu fjórða áfanga í Tjarnabyggð sem er svokölluð búgarðabyggð í gamla Sandvíkurhreppi.
Það voru Bragi Bjarnason, bæjarstjóri og Ólafur Haraldson eigandi Ólafshaga sem skrifuðu undir samkomulagið sem byggir á eldri samningi frá árinu 2005 um uppbyggingu Tjarnarbyggðar.
Uppbygging í Tjarnabyggð hófst árið 2006 en í kjölfar efnahagsástandsins árin þar á eftir hægðist á uppbyggingu svæðisins. Undanfarin ár hefurhins vegar risið fjöldi húsa á lóðunum og íbúum fjölgað samhliða.
Samkomulagið felur í sér uppbyggingu fjórða áfanga svæðisins sem inniheldur um 66 byggingalóðir í ellefu klösum þar sem sex byggingarlóðir eru í hverjum klasa. Í samræmi við samkomulagið verður uppbyggingin í áföngum þar sem að lágmarki verði byggð fjögur íbúðarhús í hverjum klasa áður en byrjað er á næsta klasa.
Áætlað er að framkvæmdir við gatnagerð hefjist fljótlega og í kjölfarið fyrsta klasanum við Norðurslóð. Landeigandi leggur auk þess til svæði undir grenndarstöð og leiksvæði/opið svæði sem nýtist íbúum hverfisins.