Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar, munduðu í dag skóflurnar og hófu jarðvinnu fyrir byggingu sextíu rýma hjúkrunarheimilis við Þórishóla á Selfossi sem ætlað er fyrir íbúa í sveitarfélögum á Suðurlandi.
Mun bæta hamingju Sunnlendinga
„Það er hluti af sóknaráætlun landshlutans Suðurlands að auka hamingju íbúanna um 5% til ársins 2025. Eitt af þessum verkfærum sem við höfum til þess að bæta hamingju á Suðurlandi er að byggja nýtt hjúkrunarheimili. Það er ekki bara mikilvægt fyrir íbúa hjúkrunarheimilisins heldur líka fyrir ættingja og aðstandendur þeirra sem þar munu búa og síðast en ekki síst fyrir það góða starfsfólk sem þar kemur til með að starfa. Við erum ekki bara að taka skóflustungu að hjúkrunarheimili í dag, heldur líka að auka möguleika Sunnlendinga á því að bæta hamingju sína, og er þá til mikils að vinna,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, í ávarpi áður en skóflurnar voru mundaðar.
Svandís er ættuð frá Selfossi og hún kom inn á það í ávarpi sínu.
„Afi minn og amma bjuggu hér á Selfossi allan sinn búskap en þau urðu gömul og dóu í Hveragerði. Hér verður staður til þess að verða gamall á Selfossi og það skiptir miklu máli fyrir íbúana. Það hefur verið lagður mikill metnaður og framsýni í hönnunina og uppbygginguna. Þetta er stórkostlega mikilvægt skref og langþráður dagur fyrir Selfoss, Árborg og Suðurland,“ sagði Svandís ennfremur.
Fyrstu íbúar flytji inn haustið 2021
Byggingaframkvæmdir hefjast af fullum krafti í desember en samið hefur verið við verktakafyrirtækið Eykt um framkvæmdina. Kostnaður við byggingu hússins verður alls 2,9 milljarðar króna. Þar af kostar bygging hússins 2,2 milljarða króna. Sveitarfélagið Árborg greiðir 16% af byggingarkostnaðinum.
Byggingin stendur við Þórishóla, austan við sjúkrahúsið á Selfossi, og verður rúmlega 4.000 fermetrars. Byggingin verður hringlaga, á tveimur hæðum, með stórum og skjólgóðum garði í miðjunni. Hvert hjúkrunarrými mun hafa einkasvalir eða garðskika sem liggja ýmist inn í garðinn eða út á við. Á heimilinu er ætlunin að gera íbúum kleift að sinna sem flestum þáttum daglegs lífs, þrátt fyrir ýmsa aldurstengda kvilla.
Áætlað er að byggingaframkvæmdum ljúki í ágúst 2021, en að fyrstu íbúar flytji inn strax þá um haustið.