Á síðasta fundi Bæjarráðs Árborgar var samþykkt að skoða möguleika á að stækka húsnæði fyrir félagsstarf aldraðra í Grænumörk á Selfossi.
Helgi S. Haraldsson, fulltrúi B-listans, flutti tillöguna en mikil aðsókn er í félagsstarf eldri borgara í húsnæði dagdvalar aldraðra í Grænumörk og salurinn sem notaður er fyrir þetta starf er löngu sprunginn.
Þegar uppi voru áform um að byggja þjónustu- og íbúðarhúsnæði fyrir eldri borgara við Austurveg 51-59, var gert ráð fyrir tengingu við núverandi húsnæði í Grænumörk. Við það hefði rými til félagsstarfs aukist verulega.
„Við teljum að það séu brostnar forsendur fyrir fyrri áformum í Mjólkurbúshverfinu. Nú er komin upp ný staða og það eru engin föst áform um stækkun. Því er rétt að skoða málin í samhengi bæði skipulagslega og fjárhagslega,“ sagði Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, í samtali við Sunnlenska.
„Mörg mál eiga sér rætur í uppsveiflunni og nú höfum við tækifæri til að endurskoða þau á skynsamlegan hátt. Húsaröðin við Austurveginn sem stóð til að rífa er í eigu lögaðila en við munum endurskoða uppbyggingaráform með hliðsjón af þeim raunveruleika sem við erum í í dag,“ segir Eyþór og bætir við að eins og staðan sé í dag eru hálfkláruð mál víða í sveitarfélaginu.
„Það þarf einhvern veginn að lenda þessu. Þetta er augljósast í miðbænum þar sem ekkert er í gangi en sömuleiðis er frágangurinn í Mjólkurbúshverfinu þannig að það blasir við að þar er verk að vinna,“ segir Eyþór.
Tillögunni var vísað til umsagnar byggingar- og skipulagsnefndar með tilliti til heildarskipulags hverfisins og til Guðlaugar Jónu Hilmarsdóttur, verkefnisstjóra félagslegra úrræða.