Nú um helgina, 18.-19. júní verður boðið upp á margvíslega skemmtun fyrir alla fjölskylduna á Uppsprettunni í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Hátíðin hefst kl. 13 á laugardaginn með „Brokk og skokk-keppni“ sem er að festa sig í sessi þar í sveit sem ómissandi hluti af sumrinu. Kl. 16:00 verður landsleikurinn Ísland-Ungverjaland sýndur á stóra tjaldinu í Árnesi og má búast við góðri stemmningu þar.
Þá um kvöldið kemur svo Maggi Kjartans og heldur uppi fjörinu.
Á sunnudagsmorguninn hefst dagskráin kl. 11 þegar leikhópurinn Lotta skemmtir áhorfendum við brekkuna hjá Neslaug. Vakin er athygli á því að miðaverð er niðurgreitt, en miðinn kostar aðeins kr. 1000, frítt fyrir 3 ára og yngri.
Í kjölfarið leiksýningarinnar er boðið upp á fjölbreytta dagskrá í Árnesi. Má þar nefna sýningu á listmunum, hönnun og góðgæti, fyrirlestra, ratleik, myndbandamaraþon, hoppukastala og klifurvegg.
Veitingasalan Árnes verður einnig opin, en þar verður boðið upp á sérstaka uppsprettumáltíð í tilefni af hátíðinni. Allar nánari upplýsingar má nálgast á Facebook-síðu Uppsprettunnar.