Sú sérkennilega staða kom upp þegar boðað var til sveitarstjórnarfundar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í síðustu viku að leita þurfti til Höllu Sigríðar Bjarnadóttur á Hæli til að sitja fundinn fyrir K-listann en Halla Sigríður sat í heiðurssæti listans í síðustu kosningum.
K-listinn fékk þrjá fulltrúa kjörna við síðustu sveitarstjórnarkosningar en Halla Sigríður sat í 10. sæti, sem er neðsta sæti listans og þar með heiðurssætið.
Þannig hagaði til fyrir fundinn að einn af kjörnum fulltrúum listans átti ekki heimangengt sökum anna heima fyrir. Svipað var ástatt með alla þá varafulltrúa sem skipa sætin niður að því tíunda.
Á heimasíðu hreppsins segir að ekki hafi skort áhuga varafulltrúanna til að nýta þetta tækifæri og mæta að hinu virðulega borði sveitarstjórnar. Miklar annir hindruðu hinsvegar að það væri mögulegt.