Úr kartöflum í keramik

Erna E. Skúladóttir opnaði á dögunum leirvinnustofuna Braggann í Birtingaholti í Hrunamannahreppi. Bragginn er gömul kartöflugeymsla sem búið er að gera upp.

Erna er alin upp í Birtingaholti og langaði að opna vinnustofu á sínum æskuslóðum þar sem hún hjálpaði foreldrum sínum við að flokka kartöflur á sínum yngri árum. Foreldrar Ernu voru kartöflubændur, en hættu fyrir tíu árum og hefur bragginn staðið auður síðan þá. “Það er gaman að fá að nýta þetta gamla rými,” segir Erna, hæstánægð með útkomuna.

Bragginn leirvinnustofa er vinnustofa, sýningarrými og stúdíóverslun og er ætluð fyrir leir og önnur skemmtileg verkefni.

Erna útskrifaðist í vor með BA í keramik frá listaháskólanum í Bergen í Noregi og stefnir á mastersnám þar í haust. Hún er aðallega að gera litla hluti í sumar, bolla, skálar og fleira.

“Ég reyni að gera hressar og skemmtilegar vörur,” segir Erna. “Ég hef unnið mikið í kaffibransanum og flakkað aðeins um heiminn. Það hefur veitt mér mikinn innblástur og mér finnst gaman að blanda saman í hönnun listmunum og nytjavörum við framandi slóðir, kaffi og ævintýri.”

Bragginn verður opinn í sumar frá fimmtudegi til mánudags kl. 13 til 18 og eftir samkomulagi. Erna stefnir einnig á að hafa opið fyrir jólin og svo aftur næsta sumar. Líklega verður Bragginn svo opinn allan ársins hring þegar Erna hefur lokið við mastersnámið eftir tvö ár.

“Ég vona að þetta verði bara lifandi rými og að ég fái fólk til að vinna með mér, halda sýningar og slíkt,” segir Erna að lokum.

erna_bragginn230612gk_805405602.jpg
Kartöflugeymslan hefur verið tekin rækilega í gegn og er nú skemmtilega
útfærð vinnustofa og sýningarrými. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinTíu Selfyssingar töpuðu í baráttuleik
Næsta greinHerða eftirlitið vegna Bestu útihátíðarinnar