Harpa Ósk Jóhannesdóttir, átján ára gömul stúlka frá Herjólfsstöðum í Álftaveri gerði sér lítið fyrir og dúxaði á stúdentsprófi frá Borgarholtsskóla í Reykjavík á dögunum.
Harpa Ósk, sem verður nítján ára í haust, lauk námi á aðeins þremur árum og útskrifaðist af náttúrufræðibraut. Hlaut hún viðurkenningar fyrir frábæran árangur í þýsku, raungreinum og íþróttum auk þess að fá viðurkenningu Háskólans í Reykjavík fyrir góðan árangur á raungreinasviði. Stúdentseinkunn hennar er 8,97 sem er vegið meðaltal allra námsgreina.
Harpa Ósk er ekta sveitastelpa og fór strax að lokinni útskrift austur að Herjólfsstöðum til að aðstoða foreldra sína og nágranna í að takast á við afleiðingar eldgossins í Grímsvötnum. „Það var rosalegt að koma heim, þótt ástandið í Álftaverinu hafi ekki verið nálægt því eins slæmt og hér austar,“ sagði Harpa í samtali við Sunnlenska.
Hörpu er tamt að sinna dýrum enda ætlar hún sér að fara í nám í dýralækningum. „Það verður þó ekki í haust, ég tek mér sennilega árs frí frá námi,“ segir hún. Hún segir að þar sem hún sé einkar heimakær sé tilhugsunin um sex ára dýralækninganám erlendis bæði spennandi og kvíðvænleg.
Aðspurð hversvegna hún dreif námið af á þremur árum í stað fjögurra eins og flestir láta sér nægja segist hún ekki hafa nennt að vera lengur í Reykjavík. „Ég var í sumarnámi til að stytta námstímann,“ segir hún. „Þá voru rigningardagarnir notaðir í að læra,“ bætir hún við. Og sveitin og kærastinn toguðu svo í hana að hún tolldi aldrei í Reykjavík og fór austur nánast um hverja helgi. „Þá var slæmt ef prófin voru á mánudegi, þá þurfti maður að eyða sunnudeginum heima í að læra,“ segir Harpa.
En Harpa Ósk er ekki einungis afbragðs námsmaður heldur einnig góður íþróttamaður og ásamt því að vera valin íþróttamaður USVS hefur hún þjálfað krakkana í ungmennafélögunum Kötlu og Skafta.