Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í morgun að setja tæpar þrjár milljónir króna til framkvæmda við lóð leikskólans Árbæjar og vísa kostnaði til viðauka við fjárfestingaáætlun.
Helstu verkþættir, sem eru hluti af umbótaáætlun, snúa að drenun lóðar, þökulögn, uppsetningu öryggismotta og fjölgun rólusetta, meðal annars út frá þörfum yngstu barnanna.
Þessir verkþættir eru skref í þá átt að tryggja að grunnmarkmið útivistarsvæðisins séu uppfyllt og það myndi eðlilegan ramma um leikskólastarfið með öryggissjónarmið og líðan barna og starfsfólks að leiðarljósi.