Úrskurðarnefnd hafnar kröfu Náttúrugriða

Tölvugerð mynd Landsvirkjunar af vindorkuverinu við Vaðöldu.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu samtakanna Náttúrugriða um að ógilda ákvörðun Rangárþings ytra um að veita Landsvirkjun framkvæmdaleyfi til vegagerðar vegna Vaðölduvers.

Nefndin kvað upp úrskurð sinn síðastliðinn þriðjudag og segir að ekki liggi fyrir neinir annmarkar sem raskað geti ákvörðun Rangárþings ytra um að veita framkvæmdaleyfið.

Náttúrugrið kröfðust þess að ákvörðun sveitarfélagsins yrði felld úr gildi og að framkvæmdir yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið færi fyrir úrskurðarnefnd. Þeirri kröfu hafnaði úrskurðarnefndin í október síðastliðnum.

Í kröfu Náttúrugriða töldu samtökin meðal annars að þátttökuréttur almennings við mat á áhrifum framkvæmdar og áætlana á óbyggð víðerni og lögbundið valkostamat hafi ekki samrýmst löggjöf um mat á umhverfisáhrifum.

Úrskurðarnefndin féllst ekki á þetta og taldi að matsskýrsla um framkvæmdina hafi gefið nægilegar upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar þannig að almenningi hafi verið mögulegt að gæta þátttökuréttar við ferli mats á umhverfisáhrifum.

Fyrri greinSyrti í álinn á lokamínútunum
Næsta greinVeðurtepptur á Sprengisandi í þrjá daga