Úrslitin í hugmyndasamkeppni um Geysissvæðið verða tilkynnt næstkomandi fimmtudag en alls bárust fjórtán tillögur um uppbyggingu og skipulag á Geysi.
Geysir er frægasti goshver í heimi og einn mest sótti ferðamannastaður á Íslandi. Framkvæmdasjóður Ferðamannastaða veitti Bláskógabyggð styrk til að halda hugmyndasamkeppni um Geysissvæðið þar sem leitað var eftir góðum hugmyndum um uppbyggingu og skipulag svæðisins.
Hugmyndasamkeppnin var kynnt síðastliðið haust en eigendur svæðisins voru sammála um að mikilvægt væri að byggja svæðið upp og koma því í það horf að hægt verði að taka vel á móti öllum gestum sem langar til að njóta svæðisins, fegurðar þess, sögu og einstæðra náttúrufyrirbæra.
Úrslitin verða tilkynnt á Geysi næstkomandi fimmtudag, þann 6. mars kl. 16:30 og eru allir velkomnir.