Þremur af fimm starfsmönnum upplýsingatæknideildar sveitarfélagsins Árborgar hefur verið sagt upp. Deildin verður lögð niður en þeir tveir sem halda starfi sínu munu sjá um stafrænar lausnir Árborgar.
Morgunblaðið greinir frá þessu og hefur eftir Berglindi Harðardóttur, mannauðsráðgjafa hjá Árborg, að á fundi bæjarráðs í júní hafi verið ákveðið að ráðast í skipulagsbreytingu á upplýsingatæknideildinni.
„Ákveðið var að leggja upplýsingatæknideild niður og bjóða út þann hluta deildarinnar sem snýr að rekstri tölvukerfa og þjónustu við þau,“ segir Berglind en starfsmennirnir sem sagt var uppp störfuðu við rekstur og þjónustu við tölvukerfi sveitarfélagsins.
„Eftir stendur þá deild stafrænnar þjónustu, en sú deild mun sjá um að innleiða stafrænar lausnir fyrir rekstur sveitarfélagsins, hafa umsjón með vef og auk þess hafa eftirlit með rekstrarsamningi á tölvukerfum og hýsingu á þeim.“