Útibúi Landsbankans á Selfossi við Austurveg 6, sem áður heyrði undir Sparisjóð Suðurlands, hefur verið lokað og verður reksturinn sameinaður aðalútibúinu á Selfossi frá næstkomandi mánudegi.
Útibúin á Höfn verða einnig sameinuð en að loknum lagfæringum á Höfn mun bankinn flytja í húsnæði sparisjóðsins og húsnæði Landsbankans á Höfn verður þá selt.
Við sameiningu útibúa á Selfossi og Höfn láta sex starfsmenn af störfum, en tveir þeirra óskuðu ekki eftir áframhaldandi starfi í sameinuðu útibúi. Þá flyst einn starfsmaður á höfuðborgarsvæðið að eigin ósk og fær starf hjá Landsbankanum þar.
Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að fækkun starfsmanna á Höfn og Selfossi sé óhjákvæmileg og endurspegli þær miklu breytingar sem orðið hafa á bankaviðskiptum á síðustu árum, m.a. færri heimsóknir í bankaútibú og sívaxandi nýtingu á rafrænum lausnum s.s. netbönkum.
Landsbankinn og starfsmenn hans munu leitast við að tryggja að sameining Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja valdi viðskiptavinum sem minnstri röskun. Strax á mánudag geta viðskiptavinir sjóðsins leitað með öll sín mál í sameinuð útibú á Höfn og Selfossi.
Netbanki og greiðslukort viðskiptavina Sparisjóðs Vestmannaeyja munu áfram virka eins og þau hafa gert. Sameiningu mun svo ljúka að fullu síðar á árinu með opnun endurnýjaðs útibús Landsbankans í Vestamannaeyjum.