Eftir að hafa verið lokuð í rúman mánuð verður útilaugin í Sundhöll Selfoss opnuð aftur í dag, mánudag. Allir heitu pottarni og sveppalaugin verða áfram lokaðir að sinni.
Sundhöllin lokaði þann 8. desember vegna heitavatnsskorts. Þremur dögum seinna voru innilaugarnar opnaðar en útisvæðið hefur verið lokað allan tímann.
Sundlaugargestir geta nú glaðst yfir því að synda aftur í 25 metra lauginni og skólasund og sundæfingar geta hafist af fullum krafti. Saunan er opin og eimbaðið verður opið milli 6:30 og 8:00 í dag en lengri opnun þess verður skoðuð í dag.
Ennþá er lokað í sundlauginni á Stokkseyri og verður svo eitthvað áfram.