Sveitarfélagið Árborg hefur sagt upp samningi við Intrum um milliinnheimtu og er uppsagnarfresturinn sex mánuðir samkvæmt þeim samningi sem gerður var fyrir fyrirtækið á sínum tíma.
Intrum mun sjá um innheimtu fyrir sveitarfélagið út samningstímann sem er til febrúar á næsta ári. Auk þess mun félagið eiga rétt á fullnaðarinnheimtu allra útistandandandi skulda sem orðið hafa til hjá þeim sem skulda sveitarfélaginu peninga, sem í langflestum eru skuldir vegna ógreiddra gjalda svo sem fyrir leikskólavist og aðra þjónustu á vegum sveitarfélagsins.
Samkvæmt upplýsingum úr ráðhúsi Árborgar er núverandi heildarfjárhæð krafna í innheimtu hjá Intrum um 94 milljónir króna að höfuðstól. Því til viðbótar eru vextir og gjöld sem verða til við innheimtuna.
Samkvæmt heimildum sem Sunnlenska hefur frá viðmælendum sínum sem reynt hafa að semja við sveitarfélagið um greiðslu uppsafnaðra skulda er ekki hægt að komast framhjá því að greiða í gegnum innheimtufyrirtækið og þannig ná samningi við sveitarfélagið um að fella niður vexti og annan áfallinn kostnað, líkt og þekkist í mörgum samningum fyrirtækja.
Að sögn Ástu Stefánsdóttur framkvæmdastjóra Árborgar fer nú fram endurskoðun á innheimtuferlum hjá sveitarfélaginu og leitast við að finna leiðir til innheimtu þar sem mið verði tekið af aðstöðu skuldara.