Sveitarfélagið Árborg hefur varið rúmri tíu og hálfri milljón króna með virðisaukaskatti í undirbúning tengdan Selfossvirkjun í Ölfusá, sem nú hefur verið horfið frá.
Fyrirspurn Helga S. Haraldssonar, áheyrnarfulltrúa B-listans, um kostnað við undirbúning virkjunar var svarað á síðasta fundi bæjarráðs.
Kostnaður sundurliðast þannig að keypt hefur verið verkfræðiþjónusta fyrir rúmar 8,4 milljónir króna og Veiðimálastofnun hafa verið greiddar tæpar 2,1 milljón króna vegna skýrslu og kynningarfundar. Þá voru greiddar 41.500 krónur fyrir rannsóknarleyfi frá Orkustofnun.
Alls eru þetta rúmar 10,5 milljónir króna en þar sem virðisaukaskattur fæst endurgreiddur er útlagður kostnaður rúmar 8,4 milljónir.