Erlendir ferðamenn voru í fyrsta sinn í meirihluta þeirra sem sigldu með Kajakferðum á Stokkseyri í sumar.
,,Þetta gekk ágætlega hjá okkur í sumar. Við hefðum auðvitað viljað að Eyjafjallajökull hefði verið til friðs en þetta kom ágætlega út og nú voru útlendingar í fyrsta skipti í meirihluta meðal gesta,“ sagði Svanfríður Louise Jones hjá Kajakferðum á Stokkseyri. Fyrirtækið hefur verið starfrækt í fimmtán sumur og hefur að sögn Svanfríðar eflst með hverju árinu. Hjá félaginu voru þrír starfsmenn í fullu starfi í sumar en nú sinnir Svanfríður þessu ein en hún hefur bókað ferðir þangað til 20. nóvember.
,,Við höfum verið að kynna okkur markvisst og komist inn á erlenda bókunaraðila þannig að þetta hefur gengið ágætlega. Þess vegna hefur erlendum gestum fjölgað stöðugt,“ sagði Svanfríður. Það kom fram hjá henni að aðsókn hefði aukist jafnt og þétt á síðustu árum og augljóst væri að fleiri væru að átta sig á möguleikum þessa svæðis til afþreyingar. Það sem vantaði væri fleiri gistimöguleikar á svæðinu en Svanfríður taldi að það stæði til bóta.
Róið er á kajökum um hin sérkennilegu lón og vatnasvæðið vestan byggðarinnar á Stokkseyri. Þar tengja þröngar rásir litlar og stórar tjarnir og þrífst þar aragrúi og fugla og jurta.