Starfsemi skipulags- og byggingafulltrúaembættisins á Laugarvatni (UTU) hefur nú flutt í nýtt og glæsilegt húsnæði á Laugarvatni. Skrifstofan hefur frá stofnun embættisins verið í húsnæði Bláskógabyggðar að Dalbraut 12 á Laugarvatni.
Það húsnæði var komið til ára sinna og þarfnaðist mikils viðhalds, til að standast þær kröfur sem gerðar eru til skrifstofuhúsnæðis. Nýja húsið sem er staðsett að Hverabraut 6 er glæsilegt í alla staði og er gamla Smíðahúsið á Laugarvatni fyrirmyndin. Verktaki við verkið var Hákon Páll Gunnlaugsson hjá Selásbyggingum.
Lóðafrágangi er ekki lokið en unnið verður að honum og aðkomu að húsinu í sumar. Stefnt er að því að húsið verði fljótlega opið fyrir almenning til sýnis. Eigandi hússins er Bláskógabyggð, en gengið hefur verið frá leigusamningi við UTU.