Nemendur Grunnskólans á Hellu hafa núna á aðventunni starfrækt skólaútvarpstöðina "Útvarp Helluskóli FM 89,9“.
Útvarpsstöðin er orðin að árvissum viðburði í skólanum og þykir ómissandi í skólastarfinu í aðdraganda jólanna, en þetta er 27. árið sem útvarpsstöðin er starfrækt. Óhætt er að fullyrða að nemendur skólans hafa af þessu mikið gagn og mikla ánægju.
Þess má geta að allir nemendur skólans koma að rekstri útvarpsstöðvarinnar á einn eða annan hátt enda fá allir nemendur skólans tækifæri á að koma fram fyrir hljóðnema þá þrjá daga sem útvarpsstöðin starfar.
Dagskrá stöðvarinnar er líkt og áður bæði vönduð og metnaðarfull. Sem dæmi um dagskrárlið má nefna skemmtiþætti af ýmsu tagi, viðtalsþætti, fréttaþætti, morgunleikfimi og jólakveðjur.
Að þessu sinni var útsendingin einnig send út á netinu, þannig að segja má að útsendingar stöðvarinnar hafi náðst út um allan heim.
Nemendafélag skólans sendir þakkir og jólakveðjur til allra velunnara útvarpsstöðvarinnar.