Fjórir ökumenn hafa verið stöðvaðir í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi síðustu tíu daga vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og einn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi en undanfarna tíu daga hafa 614 mál verið skráð í dagbókina.
Hraðakstursbrotin eru 48 talsins og fór sá sem hraðast ók 155 km/klst á vegakafla þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Hann var á ferðinni í Austur-Skaftafellssýslu. Ökumaðurinn á yfir höfði sér sekt að fjárhæð 210 þúsund krónur og sviptingu ökuréttinda í einn mánuð.
Í dagbókinni eru einnig skráð sjö slys, sem flest voru frístundaslys og einnig sautján umferðaróhöpp.