Almannavarnarnefnd hefur sent fulltrúum fyrirtækja í Árnessýslu bréf þar sem þeir eru beðnir að huga að því hvernig þeir geta lámarkað tjón ef öflugt vatsflóð kæmi frá Bárðarbungu.
Stór fyrirtæki svo sem MS á Selfossi gætu lamast ef rafmagn færi af landsnetinu, en gætu ágætlega komist af ef öflugt vararafmagn væri til sem kæmi frá rafstöð.
Kristján Einarsson, framkvæmdastjóri Almannavarnanefndar Árnessýslu, segir margt annað að hugleiða svo sem að færa verðmæti af neðsta gólfi og fleira. Sumir séu þegar farnir að gera ráðstafanir.
„Það besta sem gæti gerst er að ekkert flóð yrði, vísindamenn telja reyndar ekki miklar líkur á hamfaraflóðum, en ef það fer að gjósa í Bárðarbungu höfum við 15 til 20 klukkustundir til að búa okkur undir flóð,“ segir Kristján.
Best sé að vera með góða aðgerðaáætlun tilbúna hjá sem flestum. „Eigin varnir, þ.e.a.s. forvarnir, eru happadrýgstar“, segir Kristján, varðandi starfsemi nefndarinnar.
Mikið af búnaði til í sýslunni
Kristján segir að Almannavarnir Árnessýslu séu ekki að fjárfesta í miklum búnaði, dýnum, ljósum, og þess háttar. Slíkur búnaður liggur hjá Björgunarsveitum, slökkviliði, lögreglu, Rauða krossinum, sjúkrahúsum og sveitarfélögum svo eitthvað sé nefnt. „Það er til mikið af búnaði til í sýslunni, stórvirkar vinnuvélar, fjölmargir gististaðir, fjöldi fólksflutningabíla og fleira. Allt þetta mun virkjast ef á þarf að halda, samtakamáttur okkar hefur löngum komið sér vel þegar að okkur er sótt,“ segir Kristján.