Nemendur í Sandvíkurskóla, gamla barnaskólanum á Selfossi, verða fluttir yfir í Sólvallaskóla næsta haust og gamla skólahúsinu fundið annað hlutverk.
Þetta var kynnt fyrir foreldrum á skólaþingi Vallaskóla í gærkvöldi. Vallaskóli er nú í tveimur byggingum, Sandvík og Sólvöllum og er yngsta stigið, 1.-4. bekkur í Sandvík. Stefnt er að því að þessir bekkir flytji að Sólvöllum næsta haust.
Þegar Vallaskóli var stofnaður árið 2002 voru nemendur hans 930 en þeim hefur fækkað í rúmlega 580 eftir að Sunnulækjarskóli kom til sögunnar haustið 2004.
„Við höfum verið að fara yfir það hvernig við getum nýtt húsnæðið sem best. Nú erum við með þrjár bekkjardeildir í hverjum árgangi og það væri til bóta að sameina alla starfsemina á einni torfu,“ sagði Guðbjartur Ólason, skólastjóri, í samtali við sunnlenska.is.
Samhliða breytingunum verða settar upp kennslustofur í félagsmiðstöðinni Zelsiuz sem stendur á lóð Vallaskóla en starfsemi félagsmiðstöðvarinnar verður flutt í kjallara Pakkhússins, ungmennahúss í miðbæ Selfoss.
Samkvæmt heimildum sunnlenska.is var urgur í þeim fáu foreldrum sem mættu á fundinn vegna málsins. Skólayfirvöld og bæjarstjórn hafa fjallað um málið síðan 2007 og segja foreldrar að málið sé fyrst rætt við þá eftir að ákvörðunin hefur verið tekin.
Sandvíkurskóli er um 2.700 fermetrar og sagði Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, í samtali við sunnlenska.is að skoðað verði hvort sveitarfélagið geti flutt einhverja starfsemi inn í húsið sem verið er að greiða leigu fyrir annarsstaðar núna.
„Það eru allar hugmyndir vel þegnar, þetta er á besta stað í bænum og gæti nýst á margan hátt,“ segir Eyþór og bætir við að ekki standi til að selja húsið. „Við myndum frekar nýta það undir starfsemi sem heyrir beint eða óbeint undir sveitarfélagið. Það skapast ný tækifæri með þessu.“