Samgönguráðuneytið hefur fellt úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá því í mars 2009 um val á vegstæði fyrir þjóðveg 1 í nýrri aðalskipulagstillögu fyrir sveitarfélagið.
Valið á veglínunni hefur verið afar umdeilt innan sveitarfélagsins og olli afgreiðslan á sínum tíma klofningi innan raða meirihluta sjálfstæðismanna í þáverandi sveitarstjórn þar sem Sveinn Pálsson fráfarandi sveitarstjóri varð undir í atkvæðagreiðslu.
Ráðuneytið telur að Þórhildur Jónsdóttir, þáverandi oddviti hafi verið vanhæf í afgreiðslu málsins þar sem tengsl hennar sem eiganda jarðanna Ketilstaða 2 og 3 hafi verið með þeim hætti að afstaða hennar til málsins hafi mótast að einhverju leyti af þeim hagsmunum.
Tillaga nr. 3 gerir ráð fyrir að vegstæði þjóðvegarins verði flutt úr heimalandi Þórhildar og annað land í hennar eigu verði tekið undir nýjan veg. Beinir ráðuneytið þeim tilmælum til sveitarstjórnar Mýrdalshrepps að taka málið fyrir á nýjan leik.
Elín Einarsdóttir, sem nú er oddviti sveitarstjórnar segir í Sunnlenska fréttablaðinu að vilji meirihlutans nú sé að halda sig við veglínu 3 og málið verði tekið upp á ný undir þeim formerkjum.