Það var lítil mús sem varð þess valdandi að lottómiði var keyptur í Skeljungi í Hveragerði í ágúst síðastliðnum. Á miðann kom rúmlega tuttugu milljón króna vinningur.
Ung kona var á ferðinni í nágrenni Hveragerðis þegar hún fékk símhringingu og beðin að koma við í næstu verslun sem seldi músagildrur og ná í eina, sem hún gerði.
Þar heyrði hún fólk vera að tala um risastóran lottópott um næstu helgi og ákvað því að koma líka við í Skeljungi og freista gæfunnar en þetta var í fyrsta skipti sem hún keypti sér lottómiða. Og hún datt aldeilis í lukkupottinn því að hún var ein af fjórum sem skiptu með sér fyrsta vinningi sem var yfir 80 milljónir og fékk því hver vinningshafi rúmar 20 milljónir í vinning.
Þrír af þeim gáfu sig fljótlega fram og er unga konan fjórði vinningshafinn sem Íslensk Getspá hefur verið að bíða eftir. Þegar hún varð spurð að því hvað hafi valdið því að hún hafi ekki gefið sig fram fyrr sagðist hún bara ekki hafa átt leið í bæinn fyrr og var nú eiginlega bara búin að gleyma þessu. Milljónirnar tuttugu eru samt sem áður vel þegnar og ætlar unga konan að nota þær til að kaupa sér húsnæði.