Sunneva Sól Árnadóttir 11 ára yngismær í Flúðaskóla fékk silfurverðlaun í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda en úrslit voru tilkynnt fyrir skömmu.
Alls voru sendar inn 1872 hugmyndir en 40 valdar til úrslita og tólf hlutu verðlaun, þar af hugmynd Sunnevu. Verkið sem Sunneva sendi inn er púslbretti, tréskurðarbretti sem nýtist við matargerð og hægt er að stækka og minnka eftir þörfum, hlutunum er einfaldlega púslað saman.
Að sögn Dúnu Rutar Karlsdóttur, móður Sunnevu Sólar fóru þeir krakkar sem komust í úrslit í vinnusmiðju í Háskólanum í Reykjavík þar sem þau unnu verkið sitt. „Svo fengu þau verðlaunin afhent úr hendi forsetans og það var mikill spenningur,“ segir Dúna Rut, eðlilega stolt yfir unga hönnuðinum sínum. Brettið er nú til sýnis í Flúðaskóla ásamt verðlaunagripnum, en í skólanum eru nemendur fimmta bekkjar í nýsköpunartíma einu sinni í viku. „Þessu er ætlað að verða hvatning fyrir hina nemendurnar,“ segir Dúna Rut.
Tilgangur keppninnar er að efla nýsköpunarstarf í grunnskólum og gera börnum grein fyrir sköpunargáfu sinni og hvernig þroska megi hana í gegnum vinnu með eigin hugmyndir. Fyrir silfursætið hlaut Sunneva Sól 30 þúsund krónur, auk námskeiðs hjá FabLab í Vestmannaeyjum og hjá háskóla unga fólksins.