Vantaði hollari valkost þegar kom að skyndibita

Nýverið opnaði nýr veitingastaður í verslunarkjarnanum Sunnumörk í Hveragerði sem ber nafnið Nielsen en hann er í eigu Guðmundar Nielsen og Jónu Sigríðar Gunnarsdóttur.

Þau sérhæfa sig í hollum skyndibita en lögð er áhersla á að ferskleikinn sé í fyrirrúmi. Á matseðlinum er að finna boozt og samlokur sem búnar eru til á staðnum.

Guðmundi og Jónu fannst vanta hollan valkost þegar kæmi að skyndibita og ákváðu því að opna veitingastað í hollari kantinum. Þau reka einnig blómabúðina Hverablóm.

Ástæða þess að Guðmundur og Jóna ákváðu að fara út í þennan rekstur má rekja til þess að síðasta haust lokaði sjoppan sem staðsett var við hlið blómabúðarinnar í Sunnumörkinni. „Plássið hérna við hliðina var búið að standa autt í svolítinn tíma. Það er alltaf leiðinlegt að sjá autt verslunarhúsnæði þannig að við ákváðum að fara út í rekstur,“ segir Jóna og Guðmundur bætir við: „Þarna var rekin sjoppa þar sem hægt var að fá hamborgara en okkur fannst vanta hollari valkost þegar kom að skyndibita og því var niðurstaðan að fara út í rekstur af þessu tagi.“

Þau Guðmundur og Jóna segjast leggja mikið upp úr því að varan hjá þeim sé sem ferskust. „Við erum með margar bragðtegundir af boozti og samlokum sem við búum til á staðnum en þær hafa verið mjög vinsælar. Við reynum að nota eins mikið af ferskum ávöxtum og grænmeti í okkar afurðum og við getum,“segir Guðmundur og bætir við að þau bjóði einnig upp á sykurlausaan ís. „Það eru margir sem vilja ekki venjulegan ís og þá er fínt að bjóða upp á þetta sem valkost,“ segir Jóna.

Fyrri grein30 milljón króna verkefnisstyrkur á Laugarvatn
Næsta greinBúið að opna Þrengslin og Heiðina