„Vantar kjark til að taka ákvörðun“

„Maður hefur ekki séð að neitt sé að gerast í málinu sem virðist vera komið í hnút innan ríkisstjórnarinnar. Það er eins og það vanti alfarið kjark til þess að taka ákvörðun um bygginguna.“

Þetta sagði Ari Björn Thorarensen, forseti bæjarstjórnar Árborgar, þegar hann var spurður um þá stöðu sem nú er komin upp varðandi fangelsisbyggingu. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, lagt málið fyrir ríkisstjórnina með tillögum um að byggja nýtt fangelsi sem kosta mun tvo milljarða króna. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur gagnrýnt tillöguna sem gengur út á að ríkið byggi og eigi húsið.

Ari, sem starfar einnig sem fangavörður á Litla-Hrauni, segir að því miður séu málin ekki að skýrast þrátt fyrir að brýnt sé að fá niðurstöðu sem fyrst.

Eins og fram hefur komið hafa sveitarstjórnir á Suðurlandi stutt að byggt verði við Litla-Hraun en miðað við yfirlýsingar innanríkisráðherra virðist flest benda til þess að byggt verði á Hólmsheiði.

Sveitarfélagið Árborg hefur boðist til að falla frá byggingarleyfisgjöldum verði fangelsið byggt á Litla-Hrauni og sömuleiðis hefur Sandgerðisbær sýnt áhuga á að fá bygginguna til sín.

Fyrri greinÖruggt hjá KFR
Næsta greinTvöfalt fleiri ferðast með Herjólfi