„Það má segja að allt kjöt seljist núna og því staðan ágæt á þessum íslenska kjötmarkaði,” segir Þorgils Torfi Jónsson framkvæmdastjóri Sláturhússins Hellu.
Torfi sagði í samtali við Sunnlenska að það vantaði illilega kjötiðnaðarmenn og þá sérstaklega úrbeinara. Hjá Sláturhúsinu eru nú 22 starfsmenn og segir Torfi að hugsanlegt væri að bæta við nokkrum kjötiðnaðarmönnum.
Að sögn Torfa er ekki nema viku bið eftir að koma grip í slátrun sem sýnir glögglega eftirspurnina á hinum íslenska kjötmarkaði. Hann segir að síðustu tólf mánuði hefði orðið 9% aukning í slátrun á landsvísu og sláturhúsið á Hellu hefur þar haldið sínum hlut.
Dregið hefur úr innflutningi nautakjöts en íslenskir nautgripabændur hafa verið að auka framleiðslu sína.