Ökumaður sem lögreglan á Suðurlandi stöðvaði á Suðurlandsvegi í síðustu viku á 140 km/klst hraða var að flýta sér í skýrslutöku hjá lögreglunni á Selfossi.
Í dagbók lögreglunnar segir að maðurinn hafi klárað sín mál við lögreglumenn á vettvangi og síðan mætti hann tímanlega, um 10 mínútum fyrir boðaðan tíma, til skýrslugjafarinnar.
Alls kærði lögreglan 29 ökumenn fyrir hraðakstur í síðustu viku. Sá sem hraðast ók var á 155 km/klst hraða á Mýrdalssandi þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. Hann situr uppi með 210 þúsund króna sekt og sviptingu ökuréttar í einn mánuð, auk þess að fá þrjá punkta í ökuferilsskrá.
Einn þessara ökumanna reyndist aka sviptur ökurétti vegna fyrri brota. Hann var í V-Skaftafellssýslu, til móts við Skál og þurfti að finna sér annan bílstjóra áður en hann fékk að halda leiðar sinnar.