Rétt eftir klukkan tvö barst tilkynning um að maður hefði fallið fram af steinbrúnni sem liggur yfir Öxará, við Drekkingarhyl. Missti hann fótana á syllu, rann niður um fimm metra og lenti illa.
Sjúkraflutningamenn frá Selfossi og björgunarsveitir úr Árnessýslu fóru strax á staðinn. Þegar að var komið lá maðurinn á bakinu í steinum í vatnsfallinu undir brúnni. Var hann kaldur og verkjaði mikið í baki og úlnliði.
Björgunarliðið kom undir hann grjónadýnu sem svo var komið á börur sem hífðar voru upp á brúna þar sem sjúkrabíll beið.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig kölluð til aðstoðar en var snúið við þegar búið var að ná manninum upp. Hið sama á við um björgunarsveitafólk af höfuðborgarsvæðinu. Neyðarbíll sem sendur var frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins fór á slysstað og flytur nú hinn slasaða á sjúkrahús í Reykjavík.