Tómas Leifsson, leikmaður Selfoss, var ánægður eftir 4-2 sigurinn gegn sínum gömlu félögum í Fram á Selfossvelli í kvöld.
„Þetta var sannfærandi sigur, við skorum fjögur mörk og hefðum getað skorað mikið fleiri. Þessi tvö mörk frá þeim í lokin skemma þetta svolítið fyrir okkur en sigurinn lyftir andanum og það er hrikalega gaman að ná í þrjá punkta úr þessum leik. Þetta opnar botnbaráttuna alveg upp á nýtt. Það er orðið svo langt síðan við unnum síðast að ég var búinn að gleyma þessari tilfinningu,“ sagði Tómas í samtali við sunnlenska.is eftir leikinn.
Tómas var var sprækur í leiknum gegn sínum gömlu félögum en hann kom til Selfoss frá Fram.
„Já, það var mjög gaman að eiga við gömlu félagana. Þetta eru mest allt sömu leikmenn og þegar ég var þarna þannig að maður reyndi að nýta sér eitthvað sem maður hafði lært á þá. Leikurinn var svosem í jafnvægi framan af en svo koma þessi þrjú mörk á stuttum tíma og við förum langleiðina með þetta þá. Þetta var einn af þessum úrslitaleikjum – eins og allir aðrir leikir sem við eigum eftir. Við þurfum þrjú stig úr hverjum einasta leik.“
Selfoss mætir Grindavík í næstu umferð en liðin eru í 11. og 12. sæti deildarinnar. „Það verður annar sex stiga leikur og sigur þar gæfi okkur mikið. Við litum vel út í kvöld, Jón Daði átti frábæran leik og Viðar var mjög öflugur frammi. Nýju mennirnir eru líka að koma vel inn í þetta, Egill var flottur og Brons stóð vel fyrir sínu en þetta var bara glæsilegur leikur hjá liðinu öllu. Það voru allir góðir í kvöld og menn voru að vinna saman að einu markmiði, ef við höldum því áfram þá erum við til alls líklegir í framhaldinu.“