Karlmaður á fertugsaldri sveik út mat og drykk fyrir um 40 þúsund krónur á veitingastað á Selfossi á laugardag. Maðurinn kom inn á veitingastaðinn rétt fyrir hádegi og dvaldi þar fram á kvöld þar sem hann naut veitinga.
Maðurinn hafði enga penginga og yfirgaf staðinn án þess að greiða fyrir veitingarnar.
Hann var nokkuð ölvaður og mun hafa dottið og slasast á hendi eftir að hann kom út af staðnum. Eftir það leitaði hann á heilsugæsluna á Selfossi en þar var komið að honum inni í herbergi þar sem hann var að gramsa eftir lyfjum.
Lögreglan handtók manninn sem var færður í fangageymslu.
Eftir að runnið var af manninum var hann yfirheyrður þar sem hann bar við að hafa verið mjög svangur og í mikilli þörf að fá sér áfengi.