Búist er við mikilli umferð almennings við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi í dag. Af því tilefni þykir Slysavarnafélaginu Landsbjörg rétt að vara við hættulegum eiturgufum er fylgja eldgosum sem þessu. Um er að ræða brennistein, flúor, koltvísýring og kolmonoxíð sem er lyktarlaust og banvænt. Efnin eru leysandi og geta valdið varanlegum lungnaskaða sé þeim andað að sér.
„Eiturgösin eru þung og leka með jörðinni. Fólk er því varað við að fara inn í Hrunagil þar sem hraun lekur nú niður því gilið er þröngt og líklegt að mikið sé um eiturgufur þar,“ segir á vef Landsbjargar.
Einnig er fólki sem er uppi á Fimmvörðuhálsi við eldstöðvarnar bent á að forðast lægðir ef veður er stillt og halda sig á hólum og hæðum og standa undan vindi.