Varað við hættu á eðjuflóðum

Vegna úrkomu er aukin hætta á eðjuflóðum frá Eyjafjallajökli að því er fram kemur í tilkynningu frá Almannavörnum.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er gert ráð fyrir mikilli úrkomu á Suðurlandi í dag og mun úrkomubelti fara yfir Eyjafjallajökul.

Mikil aska er á Eyjafjallajökli og samfara úrkomu eykst hætta á eðjuflóðum vatns og ösku í ánum er renna frá jöklinum.

Jökullinn og hlíðar hans eru á skilgreindu hættusvæði og er umferð um jökulinn og hlíðar hans bönnuð. Sérstaklega er varað við umferð um gilin.

Vegfarendur um Suðurlandsveg (þjóðveg 1) og um veginn inn í Þórsmörk eru beðnir um að sýna aðgát.

Lögreglan mun auka viðbúnað og Veðurstofa Íslands fylgist náið með ástandi mála.

Síðastliðinn föstudag var haldinn fundur í almannavarnanefnd á Hvolsvelli ásamt fulltrúum Veðurstofu Íslands og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Þar var sérstaklega rætt um aukna hættu vegna eðjuflóða og viðbrögð vegna þeirra.

Fyrri greinHörð keppni í hástökki
Næsta greinPiltarnir komnir fram