Vegfarendur á Suðurlandsvegi hafa tekið eftir því að vegamótin á nýja veginum eru nokkuð öðruvísi en þeir eiga að venjast.
Á heimasíðu Vegagerðarinnar kemur fram að vegamótin séu hönnuð með tilliti til umferðaröryggis og því verður 2+2 vegurinn í raun 1+1 vegur við vegamótin. Mun öruggara verður fyrir vegfarendur en áður að taka vinstri beygjur við vegamót Bláfjallavegar og sama á við um tengingu að Litlu kaffistofunni.
Vegna tafa sem urðu vegna kærumála hófust framkvæmdir seinna en áætlað var. Þetta veldur því að vegagerð er ekki að fullu lokið við vegamótin og hafa því verið sett upp skilti sem vara ökumenn við því að vegamótin séu ekki fullgerð. Vegamótin sem og framkvæmdin í heild verða fullgerð næsta vor og sumar.
Vegfarendur eru hvattir til að sýna varúð meðan ástandið varir og einnig að hafa í huga að það tekur tíma að læra á hin nýju vegamót.