Varað við krapaflóðum og skriðuhættu

Ingólfsfjall. Ljósmynd/Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands

Veðurstofan varar við krapaflóðahættu á vestan- og sunnaverðu landinu í hlýindunum sem ganga yfir næstu daga. Skriðuhætta getur skapast þegar líður á hlýindin.

Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi vegna asahláku en skil ganga svo upp að landinu seinnipart sunnudags með mikilli rigningu. Aðfaranótt mánudagsins 9. desember verður mikil leysing á öllu landinu. Mest verður úrkoman á sunnanverðum Vestfjörðum, norðanverðu Snæfellsnesi, á Hellisheiði, auk svæða í grennd við jökla á Suðurlandi. Hiti gæti náð allt að 10°C á láglendi vestanlands, sem þýðir að rigning mun ná upp í fjallstoppa, og því má búast við asahláku á þessu svæði. Jarðvegur er víða frosin eftir kuldatíð og því má búast við miklu afrennsli á yfirborði.

Vegna hlákunnar má búast við vatnavöxtum víða um land, mest á vestan- og sunnanverðu landinu þar sem úrkomu gætir. Hætta verður á krapaflóðum– og skriðum á vestan- og sunnanverðu landinu. Vot snjóflóð geta fallið þegar hlýnar og fyrst í hlýindunum.

Fólk beðið um að tilkynna ofanflóð
Til þess að hafa yfirsýn yfir krapaflóða- og skriðuaðstæður á landinu biður Veðurstofan fólk um að tilkynna slík ofanflóð til ofanflóðavaktar Veðurstofunnar. Hægt er að hafa samband í síma 522-6000 á opnunartíma skiptiborðsins eða senda tölvupóst með upplýsingum á skriduvakt@vedur.is. Gott er að hafa mynd af skriðum og nákvæma staðsetningu auk tímasetningar, hvenær skriða féll eða hvenær fólk varð vart við skriðu.

Fyrri greinStórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga
Næsta greinAlvarlegt umferðarslys undir Eyjafjöllum