Varað við vatnavöxtum á Suðurlandi

Við Krossá. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Sigurður Jónsson

Lögreglan á Suðurlandi vill vara fólk við miklum vatnavöxtum í ám í Þórsmörk og á Fjallabaksleið syðri. 

Samkvæmt upplýsingum frá skálavörðum í Þórsmörk er vaðið yfir Krossá er orðið það vatnsmikið að illfært er fyrir dráttarvél yfir vaðið. Þá eru vöðin yfir Hvanná og Steinholtsá orðin mjög vatnsmikil og illfær. 

Árnar á Fjallabaksleið syðri eru illfærar óbreyttum jeppabifreiðum. Útlit er fyrir rigningu á svæðinu næstu daga og hvetur lögreglan fólk til að fara varlega á svæðinu.

Að sögn Einars Sveinbjörnssonar hjá veðurvefnum Bliku mun rigna hressilega á jökla sunnanlands og svæðin þar í kring. Meðal annars er reiknað með 100 mm úrkomu á Fimmvörðuhálsi í dag og öðru eins í leysingu af jöklum. Vegna rigningatíðar undanfarinna daga er há vatnsstaða fyrir í mörgum ám og lækjum og er ferðafólk beðið um að sýna sérstaka aðgát við vatnsföll og vöð.

Fyrri greinÞrír mótorhjólamenn kærðir fyrir utanvegaakstur
Næsta greinAndri Már fjórði á Íslandsmótinu