Mælingar sem sýndu hreyfingar í Heklu hafa nú heldur gengið til baka. Greinilegt er þó að Hekla er tilbúin að gjósa.
„Það er ekkert sem bendir til þess yfirvofandi hamfara vegna Heklugoss. Undanfarna daga hafa mælingar sýnt ákveðinn óróa í kringum Heklu en Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir á mbl.is að nú sé allt að róast niður.
„Hræringarnar sem mældust í fyrradag hafa heldur gengið til baka, þetta eru litlar hreyfingar en þær mældust þó yfir dálítið svæði,“ segir Páll. Hann segir hræringarnar hafa verið þarfa áminningu og gefið tækifæri fyrir fólk í nágrenni Heklu til að fara yfir sín öryggismál. Þá geti verið varasamt að ganga á fjallið.
„Það er greinilegt út frá hallamælingum og hæðarmælingum síðustu áratuga að Hekla hefur verið að undirbúa gos alveg frá því hún gaus síðast. Síðustu árin hefur þrýstingurinn í kvikunni verið kominn yfir það sem hann var á undan síðustu gosum,“ segir Páll.