„Varð meira en fólk bjóst við“

Björgunarsveitarfólk á Eyrarbakka festir niður bárujárnsplötur. Mynd úr safni sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Björgunarsveitir í Árnessýslu hafa sinnt tugum útkalla eftir hádegi í dag þegar suðvestan stormur gekk yfir landið.

„Það er óhætt að segja að dagurinn sé búinn að vera nokkuð erilsamur. Fyrsta útkallið kom tuttugu mínútur fyrir tvö og þetta er fyrst að byrja að róast núna,“ sagði Ægir Guðjónsson, formaður Björgunarsveitarinnar Bjargar á Eyrarbakka, í samtali við sunnlenska.is, þegar hann og félagar hans voru nýbúin að strappa niður bárujárnsplötur í hesthúsahverfinu á Eyrarbakka um klukkan hálf sex.

Á Stokkseyri féll byggingarkrani á iðnaðarhúsnæði og stórskemmdi það. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Við erum búin að fara í útköll hér á Eyrarbakka og Stokkseyri, þetta eru mest trampólín og járnplötur en síðan fauk byggingarkrani á hús á Stokkseyri. Við erum búin að vera með sex manns viðstöðulaust á ferðinni í allan dag og ég veit að ástandið er svipað hjá öðrum björgunarsveitum hér austur eftir ströndinni,“ segir Ægir og bætir við að vindstyrkurinn hafi mögulega komið fólki á óvart.

„Það var búið að gefa út appelsínugula viðvörun en ég hugsa að þetta hafi komið öðruvísi og þetta varð meira en fólk bjóst við. Reyndar er búið að vera töluvert minna rok hérna á Eyrarbakka heldur en á Stokkseyri, til dæmis.“

Ægir Guðjónsson, formaður Bjargar á Eyrarbakka. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Aspir féllu á Selfossi
Aðgerðastjórn björgunarsveita í Árnessýslu var virkjuð í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi eftir hádegi í dag og samkvæmt upplýsingum frá Viðari Arasyni, sem sat í aðgerðastjórn í dag, voru útköllin fjölmörg.

„Það fauk stórt hjólhýsi á hliðina í Þorlákshöfn, á Selfossi fóru vinnuskúrar af stað og tré féllu og meðal annars þurfti að kalla út Brunavarnir Árnessýslu til að saga niður stóra ösp sem hafði fallið. Það urðu einnig skemmdir á þakköntum í Hveragerði,“ segir Viðar og bætir við að staðan hafi einnig verið mjög slæm og sé það raun enn í Mýrdalnum og í nágrenni Hafnar þar sem húsbílar hafa fokið útaf vegum.

Suðurlandsvegur var lokaður austan Hvolsvallar í langan tíma í dag en hefur nú verið opnaður aftur. Það var röð í Vík. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson
Víða á Selfossi rifnuðu tré upp með rótum. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir
Á Selfossvelli fengu varamannaskýlin brottvísun og trjágróður og auglýsingaskilti fuku. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir
Fyrri greinAppelsínugul veðurviðvörun í gildi
Næsta grein„Fólkið beið í bílnum og var öruggt“