Varmadælur skila miklum lækkunum

„Já, það er rétt, hér hefur húshitunarkostnaður stórlækkað með tilkomu nýrra varmadæla, sem settar voru upp í vetur, bæði við félagsheimili, skóla- og íþróttamannvirki eftir að sorpbrennslu var hætt.

Sjálfur er ég með varmadælu við mitt heimili, sem er 134 fermetra parhús. Þar hefur kostnaðurinn t.d. lækkað úr 26 þúsund krónum á mánuði niður í 9 þúsund krónur, sem hlýtur að teljast mjög gott,“ segir Guðmundir Ingi Ingason, oddviti Skaftárhrepps, þegar hann var spurður út í varmadæluvæðingu í sveitarfélaginu.

Hann segir að sömu sögu sé að segja þar sem varmadælur eru við fasteignir Skaftárhrepps, þar hafi kyndingarkostnaður stórlækkað.

„Já, við erum að sjá allt að helmingslækkun á kyndingarkostnaði í skólanum og íþróttamannvirkjum, þannig að það munar um minna. Sú dæla kostaði um 16 milljónir króna og verður vonandi fljót að borga sig upp,“ bætti Guðmundur við.

Skaftárhreppur er á svokölluð köldu svæði, þar sem ekki hefur fundist heitt vatn sem nýta má til húshitunar. Voru skólinn og íþróttamannvirki því hituð upp með svartolíubrennara og síðar með varma frá sorpbrennslustöð sveitarfélagsins.

Fyrri greinViktor S.: Lausnir á leigumarkaði
Næsta greinKvenfélagið gaf fjórar iPad tölvur