Ungarnir fjórir sem klöktust úr eggjum í hrafnslaupnum í Byko á Selfossi þann 28. apríl síðastliðinn drápust allir og er laupurinn því tómur.
Þetta er í fyrsta skipti sem Hrafni og Hrefnu, eins og Bykoparið hefur verið nefnt, mistekst að koma ungunum á legg. Varpið hefur vakið mikla athygli í gegnum árin en hægt hefur verið að fylgjast með laupnum í vefmyndavél Byko.
Ungunum fækkaði um tvo í síðustu viku en síðast sást til Hrefnu liggja í laupnum á föstudagskvöld. Í gærmorgun var laupurinn hins vegar tómur.
Í samtali við sunnlenska.is sagði Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur á Stokkseyri, málið hið undarlegasta, en einhver pest gæti hafa herjað á ungana fyrst þeir drápust svona litlir. Hingað til hefur gengið vel hjá þessum fuglum að koma upp ungum, svo reynsluleysi sé ekki um að kenna.
Þar sem langt er liðið á vorið er hæpið að parið muni aftur reyna að koma upp ungum í ár.
Smelltu hér til að heimsækja hrafninn
TENGDAR FRÉTTIR:
Hrafnslaupur á óvenjulegum stað