Það er ekki á hverjum degi sem íslenskir skátar læðast um skóg með logandi kyndla að nóttu til, eða keppa sín á milli í bogfimi, spjótkasti og fleiri víkingaíþróttum, en það gerðist nú samt á víkinganámskeiði á Úlfljótsvatni um nýliðna helgi.
Það var Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni sem stóð fyrir námskeiðinu, annað árið í röð. Þátttakendum var skipt upp í þrjár ættir sem öttu svo kappi sín á milli í ýmsum víkingaleikjum og -íþróttum. Auk þess lærðu skátarnir leðurvinnu að víkingasið, máluðu skjaldarmerki ættflokka sinna á skildi og sýndu sögu þeirra á leikrænan hátt á fjörugri kvöldvöku. Mátti þar sjá trjáhöggvandi landnámsmenn, mikla kappa sem féllu í valinn og ósvikna ást sem forðaði ættunum frá því að deyja út.
„Það má kannski segja að þungamiðjan í námskeiðinu hafi verið bogfimin,“ segir Guðmundur Finnbogason sem gegndi stöðu jarls á námskeiðinu.
„Þátttakendur fengu gott tækifæri til að kynnast bæði sveigbogum og langbogum og æfðu sig mikið í að skjóta á mark. Á sunnudeginum vorum við svo bæði með allsherjarþing þar sem fram fór keppni milli ættanna í bogfimi, sparkfimi og spjótkasti og svo enduðum við námskeiðið á því að krýna bogfimikempu Úlfljótsvatn 2014, eftir einstaklingskeppni.“
Fyrir suma náði námskeiðið þó hámarki á laugardagskvöldinu þegar ættirnar héldu út í skóg með kyndla og áttu að reyna að komast yfir skildi hvorrar annarrar í æsilegum næturleik.
Á námskeiðið voru skráðir 17 þátttakendur, en auk þeirra var fjöldi af aðstoðarfólki og leiðbeinendum sem lagði hönd á plóg. Gert er ráð fyrir að víkinganámskeiðin séu árlegur viðburður á Úlfljótsvatni, enda var ekki annað að heyra á þátttakendum þetta árið en að þá langaði að koma fljótt aftur.