Vatnajökulsþjóðgarður er kominn á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).
Ákvörðun þess efnis var tekin á fundi heimsminjanefndar UNESCO í Bakú í Aserbaídsjan í dag á grundvelli þess að þjóðgarðurinn hafi að geyma einstakar náttúruminjar. Þar með er staðfest að náttúra þjóðgarðsins og friðlandsins í Lónsöræfum teljist hafa einstakt gildi fyrir mannkynið.
Einstakt vegna samspils elds og íss
Svæðið er einstakt á heimsvísu vegna sköpunarkrafta náttúrunnar, samspils elds og íss og þeirrar jarðfræðilegu fjölbreytni sem af því leiðir og er sýnileg á yfirborði þjóðgarðsins. Landsvæðið sem um ræðir er afar stórt og um 12% Íslands eru þannig komin á heimsminjaskrá UNESCO sem einstakar náttúruminjar.
Tillaga ríkisstjórnarinnar um að Vatnajökulsþjóðgarði yrði bætt á heimsminjaskrána var afhent skrifstofu heimsminjasamningsins í París í lok janúar 2018. Frá þeim tíma hefur tillagan verið til gaumgæfilegrar skoðunar og úttektar hjá Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum IUCN sem eru heimsminjanefndinni til aðstoðar við að meta heimsminjagildi, upprunaleika, heilleika og verndarstöðu staða sem tilnefndir eru á skrána vegna náttúrufars. Auk þess að vera viðurkenning á einstakri náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsvísu er ákvörðun heimsminjanefndarinnar viðurkenning á þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að stofna þennan víðfeðma þjóðgarð og mikilvægur stuðningur við verndun og stjórnun svæðisins.
Lyftistöng fyrir svæðið
„Þetta er dýrmætt skref fyrir okkur Íslendinga sem án efa verður lyftistöng fyrir svæðið og orðspor þess. Við berum ábyrgð á þessu stórbrotna landi, ekki aðeins fyrir okkur sjálf – heldur heiminn og framtíðina. Ég fagna þessum mikilvæga áfanga og þakka þeim fjölmörgu sem unnið hafa ötullega að þessu markmiði undanfarin ár,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Tilheyrir sameiginlegri arfleifð mannkynsins
Heimsminjasamningur Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins grundvallast á þeirri forsendu að ákveðnir staðir á jörðinni hafi sérstakt alþjóðlegt gildi og eigi sem slíkir að tilheyra sameiginlegri arfleifð mannkynsins. Með samningnum viðurkenndu ríki nauðsyn verndunar þar sem það er talið skaða arfleifð allra þjóða heims ef einhver hluti hinnar menningarlegu eða náttúrulegu arfleifðar spillist eða hverfur. Ísland á þegar tvo staði á heimsminjaskránni, Þingvelli (2004) og Surtsey (2008).